Saturday, March 31, 2007

Páskafrí og vor

Þá er ég komin í páksafrí. Síðan í gær.

Hyggst koma mér til Íslands á mánudaginn. Ef einhver hefur gífurlegan áhuga á að sækja mig til Keflavíkur, þá er sá hinn sami beðinn um að gefa sig fram, annaðhvort í kommenti hér neðanmáls eða eftir öðrum leiðum. Mun lenda í Keflavík um fimmleytið síðdegis á mánudaginn ef allt er samkvæmt áætlun.

Vorið er klárlega komið í Útlandinu.

Sunday, March 25, 2007

200

Í nótt hoppaði ég yfir einn klukkutíma. Nú er ég orðin tveimur tímum á undan.

Það lítur út fyrir að vorið sé komið í Útlandinu.

Þetta er tvöhundruðasta færslan á þessu bloggi.

Hér er ritræpan greinilega allsráðandi.

Wednesday, March 21, 2007

Stelpubekkur

Þá hefur það verið gert opinbert.

Næsti árgangur af tónsmíðanemum hér í skólanum verður að mestu leyti skipaður stelpum. Það mun vera í fyrsta skipti sem stelpur eru í meirihluta í slíkum bekk hér á bæ. Það er nú ekkert vegna kynjamisréttis. Stelur eru alltaf í miklum minnihluta umsækenda.

Þannig var því einnig farið nú. Af þeim 14 sem mættu í viðtal voru fjórar stelpur og tíu strákar. 75% kvenumsækenda komust inn en aðeins 10% umsækenda af karlkyni. Ætli þetta væri ekki kallað “jákvæð mismunun” samkvæmt jafnréttissjónarmiðum.

Hvað getur maður sagt, stelpur eru bara meira kúl ...

Annars er ekkert mikið í fréttum þessa dagana.

Almenn leti virðist fylgja hækkandi sól. Og að sjálfsögðu hefur ekkert ringt síðan ég keypti stígvélin, og ekkert slíkt er að sjá í spákortum næstu viku. Bara sól og blíða.

Þessi stígvélakaup voru greinilega alveg að gera sig.

Spurning um að taka stígvélin með í páskafríið til að tryggja sól og blíðu meðan ég dvel á fróni.

Monday, March 19, 2007

Skóli?

Í dag var fyrsti kennsludagurinn í rúma viku.

Vaknaði snemma morguns, ekkert alltof áköf í að drífa mig í skólann svo árla dags.
Þegar ég var búin að vera vakandi í 10 mínútur, og klæða mig í einn sokk, fékk ég skilaboð þess efnis að kennarinn sem kenna átti fyrstu tvo tímana væri veikur.
Klæddi mig aftur úr sokknum og hélt áfram að sofa í þessa tvo tíma.

Vaknaði aftur og fór í skólann síðla morguns. Hitti þar bekkjarfélaga mína eftir langan aðskilnað (heila níu daga). Við biðum spennt eftir að fá loksins að mæta í tíma.
Þegar 20 mínútur voru liðnar af áætluðum kennslutíma og enginn kennari mættur, ákváðum við að grafast fyrir um málið, og héldum í hópferð uppá skriftofu. Þar fengum við símanúmerið hjá umræddum kennara. Hann kvaðst afar veikur. Svo veikur að hann hyggur ekki á endurkomu fyrr en eftir páskafrí.

Inntökuprófavikan hefur greinilega tekið mjög á hjá sumum.

Hálfgerð paranoja greip um sig hjá sumum bekkjarfélögunum, þar sem þeir sáu framá að þurfa að skipuleggja enn einn daginn (þann tíunda í röð) uppá eigin spýtur.

Sjálf ákvað ég að fara á skóveiðar. Það gekk nú ekki betur en svo að ég kom heim með þessi fínu gúmmístígvél.
Á ekki örugglega að vera rigning í sumar?

Skilaboð til skóframleiðenda:
Hvernig væri nú að búa til skó sem eru eins og lappir í laginu.

Í dag á elsta systirin afmæli.
Til hamingju með daginn Hugrún.

Saturday, March 17, 2007

Brot á mannréttindum

Spaugstofan gerði snilldargrín að júróvisjonmyndbandinu:

Mig vantar hárþurrku því fer ég út að aka,
í opnum bíl, og frakka´ í stíl.
Þó renn´ úr nösum hor og horinn verð´ að klaka,
þá spyr ég hver, litaði hárið á mér?

Áður hafð´ ég hárið rautt,
nú er það bara brúnt og dautt.
Ó já, svei mér þá.
Það er rytjulegt og tætt
og ekki lengur sjón að sjá.

Segðu mér hvað get ég gert?
Greitt í píku eða stert?
Ó nei, sei sei sei.
Nei mér sýnist bara skárra
að hafa höfuðleðrið bert.

Það jaðrar náttúrulega við helgispjöll og brot á mannréttindum að hafa sjálfan Eirík Hauksson með brúnt hár í myndbandinu.
Ég lít á það sem persónulega árás.

Málið verður tekið fyrir á næsta fundi Félags rauðhærðra, þar sem svona lagað er litið mjög alvarlegum augum.

Friday, March 16, 2007

Inntökuprófin búin

Þá eru inntökuprófin búin og ég orðin margs vísari val á nemendum í skólann.

Einhverra hluta vegna var mun minni áhugi meðal prófessora á vali nemenda í meistaranámið. Þar voru bara 3 í dómnefnd, á meðan 6-7 fylgdust af áhuga með hinum prófunum. Þar sem það voru svona fáir í dómnefndinni í dag fékk ég líka að tjá mig um hæfni umsækjenda. Var jafnframt sagt að ég þyrfti ekki að vera sammála “hinum æðri” í nefndinni. Það vildi nú þannig til að ég var nokkuð sammála þeim, og gat rökstutt þann dóm með viðundandi hætti. Auk þess notaði ég tækifærið og sagði mínar skoðanir á ýmsum praktískum hlutum varðandi undirbúning prófanna sem betur mættu fara. Sjitt hvað maður er orðinn pró eitthvað.
Er samt ekkert viss um að ég vilji sækja um þetta nám. En ég hef nú ennþá 3 ár til að hugsa mig um ...

Er annars langt á eftir áætlun með allt mitt heimanám. Fengum nefnilega ríflegan skammt af slíku fyrir þessa viku, þar sem engin fög voru kennd vegna inntökuprófa.

Um helgina er þá stefnan að gera tónlist við eina stuttmynd og klára ýmis smærri verkefni.

Fattaði í dag að það eru bara tvær vikur í páskafrí. Tíminn líður.

Wednesday, March 14, 2007

Spennan í hámarki

Núna er inntökuprófavika í skólanum.

Sjálf þreytti ég slíkt próf fyrir ári síðan og hafði gríðarlega gaman að. Svo gaman, að ég fékk að taka þátt í prófunum aftur í ár. Að þessu sinni þarf ég reyndar að láta mér nægja að sitja hinumegin við borðið, og fá talsvert minni athygli en fyrir ári. En á móti kemur að ég fæ að sitja inni í öllum prófunum, ekki bara einu.

Ég fékk semsagt það verkefni að vera fulltrúi nemenda í inntökuprófanefnd tónsmíðadeildar. Stefni hraðbyri í að verða kennarasleikja dauðans í þessum skóla, einsog þeim síðasta sem ég stundaði nám við.

Nú eru inntökuprófin í bachelor-námið búin. Að sjálfsögðu má ekkert gefa upp hverjir fá inngöngu fyrr en að viku liðinni. Þá verða niðurstöðurnar gerðar opinberar á heimasíðu skólans. En þess má geta að næsti árgangur mun marka tímamót í sögu tónsmíðadeildar þessa ágæta skóla. Meira um það að viku liðinni ...

Á föstudaginn fæ ég svo að fylgjast með inntökuprófum í meistaranám. Gæti komið sér vel ef mér dettur sjálfri í hug að þreyta slíkt próf einhvern daginn (sem ég efast reyndar um að eigi eftir að gerast).

Það koma upp ýmis skemmtileg atvik í tengslum við svona próf.

Dæmi:
Það var alger samstaða um hverjir fengju inngöngu. En þegar velja átti “varamann” (þann sem fengi inngöngu ef vilyrði fengist fyrir “aukaplássi” – sem gerist stundum), var samstaðan ekki lengur alger. Þessir rólyndismenn tóku jafnvel að hækka róminn. Að lokum var einn orðinn ansi pirraður og sagði:
“Ókei, það er bara ein leið til að útkljá þetta mál. Sláumst uppá það! Takið af ykkur gleraugun!”
Þar sem enginn þorði íann fékk hann að ráða. Fagmannleg vinnubrögð hér á ferð.
Hefði reyndar verið ansi gaman að sjá hópslagsmál virðulegra prófessora, sem flestir eru komnir yfir miðjan aldur.
Fyndnir kallar.

Monday, March 12, 2007

Eftirlýsing

Ég lýsi hér með eftir Sóleyju.

Ertu dáin Sóley?

Eða var þér rænt á leiðinni heim frá útlöndum?

Sunday, March 11, 2007

Mars

Þegar marsmánuður gekk í garð hélt ég að það yrði alltaf 1. mars.

Á hverjum morgni þegar ég vakna finnst mér mars vera nýbyrjaður.

Þegar líða tekur á daginn fer mig stundum að gruna að það sé í rauninni ekki lengur 1. mars (kannski þriðji eða fjórði?).

Nú er ég loksins farin að fatta að mars líður alveg eins og allir hinir mánuðurnir.

Og það er að koma vor í Útlandinu sýnist mér.

Tuesday, March 06, 2007

Píanókennarinn mættur

Það góða við leiðinlegar vikur er að það verður bókstaflega allt skemmtilegt eftir þær.
Þessa dagana er semsagt allt ótrúlega frábært.

Meiraðsegja tónheyrnartíminn í dag var skemmtilegur.

Fór líka í píanótíma í dag. Hann var merkilegur fyrir þær sakir að meintur píanókennari minn mætti. Í fyrsta skipti í vetur (er búin að vera með afleysingakennara hingað til). Það eina sem ég vissi um umræddan mann, var að hann fer allra sinna ferða á hjólastól, og hann er alltaf veikur.

Ég bjóst að sjálfsögðu við hinu versta. Reiknaði með að hitta fyrir gamlan reiðan kall (sennilega fyllibyttu út af þessu langa veikindafríi) sem yrði brjálaður ef maður spilaði einhverja vitleysu. En það var nú öðru nær. Indælasti kall, sem sagði að ég væri flink að spila á píanó. Jeij.

Í gær fékk ég atvinnutilboð. Og í fyrsta skipti á ævinni gat ég afþakkað slíkt boð án umhugsunar.

Monday, March 05, 2007

Vetrar(ó)hljóðahátíðin, eftirmáli

Á einum fyrirlestrinum fór fram smá kynning á nútímatónlistarhátíð sem fram fer árlega í Gobi-eyðimörkinni í Mongólíu. Þar er ekki gert ráð fyrir meira en 50-60 erlendum gestum, og innfæddir yfirgefa tónleikasvæðið ef þeim leiðist (þú getur t.d. gleymt því að koma með tónverk yfir 5 mínútur. Þá eru sko allir farnir). Spurning hvort þetta sé ekki bara heimsins besta staðsetning fyrir slíka tónlistarviðburði.

Það sem gleymist oft í umræðunni um nútímatónlist þessa dagana, er að nú er fólk farið að semja “lög” (áheyrilega tónlist) aftur (loksins). En þau tónverk týnast yfirleitt í ruglinu. Ég vona að þróunin í tónsmíðum verði í átt að “afþreyingu” framvegis.

Í tónsmíðatíma í haust sagði kennarinn minn um eitt lag sem ég hafði samið, að það væri fínasta afþreying. Eftir þessa athugasemd spurði hann hvort ég væri móðguð. Ég hváði og skildi ekki af hverju ég ætti að vera móðguð. Er ekki einmitt tilgangurinn að búa til afþreyingu?

Og þá er spurningin: Hvað er afþreying?
Í mínum huga er afþreying allt sem maður gerir utan skóla, vinnu og ýmissa daglegra verka, sem ekki verður komist hjá. Öll áhugamál, sjóvarp, leikhús, kvikmyndir o.s.frv. Allt er þetta afþreying. Þannig að auðvitað er maður glaður þegar maður hefur samið “afþreyingartónlist”. Tónslistariðnaður er afþreyingariðnaður. Það er bara ekkert flóknara en það. En því miður eru alltof mörg tónskáld sem virðast ekki vilja skilja þessa einföldu staðreynd. Þau tónskáld segja að tónlist eigi að: “vera áhugaverð og hafa einhverja ákveðna dýpri merkingu”.

Þetta er bull. Maðurinn á götunni vill ekki þurfa að kynna sér tónverk í þaula til þess að geta farið á tónleika. Hann vill geta farið á tónleika og notið þess sem fram fer, án þess að vinna einhverja heimavinnu fyrst.

Eða er það ekki? Er ég kannski bara eitthvað rugluð? Eru tónskáldin sem semja alla þessa tónlist sem er “áhugaverð og inniheldur dýpri merkingu” í alvöru svo vitlaus að þau sjá ekki þá einföldu staðreynd að tónlist er afþreying?

Jah, maður spyr sig.

Sunday, March 04, 2007

Vetrar(ó)hljóðahátíðin, 2. hluti

Í gær fór ég á fyrirlestur þar sem sett var met í almennum leiðinlegheitum. Þjóðverji að nafni Nicolaus A. Huber ræddi þar mjög nákvæmlega eitt af sínum verkum. T.d. fór hann mjög ítarlega í hvers vegna hann notaði mest einhverja þrjá tóna. Og hvernig ýmis önnur tónskáld hefðu notað akkúrat þessa sömu þrjá tóna (þetta hefði verið hægt að gera með hvaða þrjá tóna sem er og GEISP). Svo ræddi hann leeeengi um takttegundir. Hann notaði sko mest þrí- eða fjórskiptan takt. Og 3+4=7. En svo kom taktur í 5 og svo í 2. Og viti menn 5+2 eru líka 7! Þvílík tilviljun! Hann hafði líka notað hraðamerkingar eins og 56, og 84, sem hvuru tveggja eru tölur sem ganga upp í 7! Maðurinn er greinilega snillingur!
Eins og gefur að skilja var þetta tónverk alveg ömurlega leiðinlegt (og jafnvel leiðinlegra eftir að hafa heyrt fyrirlesturinn).
Þegar þarna koma við sögu var ca. klukkutími búinn og klukkutími eftir af fyrirlestrinum. Mér var orðið óglatt af einskærum leiðindum og hætti því að mestu að fylgjast með (fannst aðeins of dónalegt að standa upp og fara, þar sem áheyrendur voru mjög fáir. Skiljanlega).
Niðurstaða: Það getur verið gaman að leysa Sudoku, en það er ekkert gaman að skoða Sudoku-þrautir sem einhver annar hefur leyst.

Eftir fyrirlesturinn voru tónleikar með verkum eftir kallinn. Tveir langir klukkutímar. Það sem bjargaði þeim var hvítvín í hléi. Eftir hléið var tónverk með lyktum. Tónverkið samanstóð af einhverju háværu suði og texta, sem var of háfleygur til að nokkur skildi hvað væri verið að fara. Lyktirnar voru framleiddar með reykelsum og spreyjum (sem lyktuðu eins og reykelsi). Voða sniðugt. Þangað til maður kom heim. Þá var þetta spurning um alþrif á öllu sem hafði verið í umræddum tónleikasal.
Niðurstaða: Ef maður getur ekki samið almennileg lög, hvernig væri þá að gera eitthvað annað sér til lífsviðurværis og hlífa einhverjum vesalings tónsmíðanemum (og óheppnum þýskum kjeeellingum sem áttu von á einhverju allt öðru) við þessum hörmungum. Sumt er nefnilega bara gaman fyrir mann sjálfan. Ekki til að sýna öðrum (sbr. Sudoku-dæmið).
Og í sambandi við textanotkun: Hvernig væri nú að koma niður á jörðina, eða aðeins nær henni allavega. Að hafa texta sem enginn skilur (og fjallar yfirleitt um orku alheimsins, eða eitthvað álíka) er ekki kúl lengur. (Ef það var þá einhverntímann kúl).

Síðustu tónleikarnir voru í dag. Það voru slagverkstónleikar. Voða gaman framan af. En tónleikarnir urðu allt of langir. Ótrúlegt að fólk skuli ekki fatta að stilla tónleikalengd í hóf. Sérstaklega þegar um nútímatónlist er að ræða.

Það vakti athygli mína hverjir þessir fáu voru sem mættu á viðburði þessarar hátíðar:
- Fyrsta árs nemar í tónsmíðadeildinni voru duglegir. Mættu yfirleitt allir. Alltaf.
- Tveir annars árs nemar (af fjórum) mættu einstaka sinnum.
- Einn fjórða árs nemi (af fimm) mætti af og til.
- Mastersnemar í tónsmíðadeild mættu ekki.
- Prófessorar í tónsmíðadeild mættu eiginlega aldrei (nema verið væri að flytja verk eftir þá). Nema auðvitað Daninn sem skipulagði dæmið. Hann mætti alltaf.
- Aðrir sem mættu voru aðallega þýskar kjeeellingar (útaf gestatónskáldinu sem var Þjóðverji) og örfáir aðrir.

Á þessari upptalningu má glöggt sjá að áhugi fyrir nútímatónlist er lítill sem enginn. Þegar þeir sem starfa við að kenna fög tengd tónsmíðum mæta ekki einu sinni á slíka viðburði á vegum skólans, þá held ég að það sé alveg hægt að draga eftirfarandi ályktun:
Nútímatónlist er leiðinleg. Það finnst öllum. Meira að segja þeim sem hafa atvinnu af henni.

Af því tilefni koma hér skilaboð til tónskálda:
Hvernig væri nú að semja tónlist sem fólk gæti mögulega haft ánægju af að hlusta á. Ef það er ekki tilgangurinn, hver er hann þá?

Saturday, March 03, 2007

Vetrar(ó)hljóðahátíðin, 1. hluti

Jæja. Þetta var nú aldeilis löng vika. Sérstaklega síðustu dagarnir. Kom reyndar á óvart hvað fyrstu tónleikarnir (á mánudag, þriðjudag og miðvikudag) voru ágætir. Náði ekki að pirra mig neitt af ráði yfir þeim. Og sumt var hreinlega fínt! Þar má helst nefna sönglagatónleika, þar sem nemendur skólans fluttu splunkuný sönglög eftir norsk tónskáld. Flest afar frambærilegt og þægilegt að hlusta á. Kom skemmtilega á óvart.

Þegar kom fram á fimmtadag fór þetta þó að versna. Þá var fjallað um “impróviseraða nútímatónlist” (nú hefur orðið “impróvisering” verið þýtt sem “snarstefjun” á íslensku. En það orð á engan vegin við hér. Engin stef í gangi).
Það snýst semsagt um að tónskáld skilar hljóðfærahópi einhverskonar skissu af hálfkláruðu tónverki, og svo geta hljóðfæraleikararnir spilað það sem þeir vilja af því verki. Eða bara eitthvað annað, ef þeim sýnist svo. Þetta var hugsað til að fá djasstónlistarmenn til að spila nútímatónlist. Þeim fannst voða gaman. Spiluðu eins sterkt og þeir gátu (allir, allan tímann) það sem þeim sýndist, þangað til þeir nenntu ekki meir.
Niðurstaða: Læti í x langan tíma.

Á einum tónleikum var meðal annars sýnd nýstárleg aðferð til að búa til salat. Í miðju verki fóru slagverksleikararnir að skera niður grænmeti á borði fyrir miðju sviðinu. Svo hættu þeir því og héldu áfram að spila á trommurnar sínar. Undir lok verksins slettu þeir káli, sem geymt hafði verið í skálum með vatni, yfir grænmetið. Skondið. Ekki síst þar sem þessir trommarar voru annars vegar langur og mjór strákur, og hins vegar lítill og þybbinn strákur.
Niðurstaða: Eitt skondið atriði. Annars ekkert markvert.

Eftir þessa tónleika fór allt á versta veg ...

Framhald á morgun. Bíðið spennt.

Thursday, March 01, 2007

Bjórdagurinn

er í dag. Til hamingju með það.

4 dagar búnir af Vetrarhljóðahátíðinni. 3 eftir.